Vinn heima í dag.

Sælt veri fólkið.

Ég biðst forláts á bloggleysinu. Þessi blessaða fésbók dregur úr manni allan bloggkraft, en jæja prófum að henda einhverju inn hérna þar sem ég er nú að vinna heima í dag.

Það er alveg skelfilegur lúxus að geta unnið heima. Ég þarf ekki að fara í jakkafötin, raka mig og fara í sturtu. Ég get strokið hrjúfan vangan, notið svitalyktarinnar og drukkið allt það kaffi sem mig langar til. Ég tek símann þegar þarf, svara tölvupóstum og slæ inn vinnuskýrslur. Rás 2 ómar úr alnets útvarpinu, sem ég vil meina að hafi verið bestu kaup síðustu ára. Afskaplega huggulegt.

Síðastliðinn þriðjudag lágu skilaboð á símsvaranum mínum. Maður að nafni Borgþór vildi ná sambandi við mig. Ég tengdi ekki strax...en fattaði svo að þetta var Borgþór kennari úr Fjölbraut Suðurnesja. Hann var á leið til Odense og datt í hug að kíkja við í kaffi. Hann kom í einn kaffi í gær og það var alveg stórskemmtilegt að hitta Borgþór og rifja upp gamla tíma. Ég áttaði mig á því í gær að þegar hann kenndi mér leit ég á hann sem "eldri" mann. Mann á svona ótilgreindum aldri, svona bara eldri. Hann var 37 ára þegar hann kenndi mér Listir 103 í Fjölbraut 1987...þremur árum yngri en ég er í dag!!! Ég hef verið að bryðja róandi í dag eftir þessa uppgötvun. Ég er orðinn "eldri maður". Mér líður samt alltaf eins og ég sé 17...sambýliskona mín vill kannski færa þann aldur enn neðar.

Árið "so far" hefur verið alveg ágætt. Veðrið hefur þó verið leiðinlegt. Mér er næstum alltaf kalt. Húsið hérna er líka álíka þétt og wikileaks...gustar um allt. Ég er næstum alltaf í ullarsokkum og lopapeysu þegar ég er heima. Anyway, árið so far. Við fórum í smá framkvæmdir í eldhúsinu. Fengum leyfi til að laga það aðeins og tókst að gera það sómasamlegt fyrir afskaplega lítinn pening. Oddur vinur okkar hér í bæ var driffjöðurinn í þessu verkefni. Hann lagaði borðplöturnar, flutti til skápa í innréttingunni og skar út fyrir vaskinum. Núna er ísskápur ekki á miðju eldhúsgólfi og við höfum borð í eldhúsinu. Nú langar mann að hafa eldhúsið hreint og fínt...ekki alveg mest ríkjandi löngun áður. Oddur stóð sig eins og hetja. Hann lét meira að segja ekki hnykk á bakið stöðva sig. Hélt ótrauður áfram. Allt var klárt á tæpri helgi. Ég hjálpaði með því að vera ekki fyrir og vinna sem snattari. Lærði vel á Bauhaus þessa helgi.

Hænur og kanína eru enn á lífi. Hænurnar verpa eins og það sé enginn morgundagur. Alveg magnað. Ég held að við séum með 20 egg í ísskápnum núna og ég á eftir að ná í eggin í dag. Síðan þessar elskur tóku búsetu hérna höfum við keypt einu sinni egg...á 9 til 10 mánuðum...væri fróðlegt að reikna þann sparnað. Reyndar borðum við ekki mikið af eggjum.

Steini mætti á svæðið um síðustu helgi og það var ferlega gaman. Við elduðum andabringur á sunnudaginn og ég mun lifa lengi á þeirri steik. Grunnurinn að sósunni var ca. hálf flaska af púrtvíni :)

Framundan er svo ferð til Gautaborgar þar sem ég fer á námskeið í verkefnastjórnun. Stefni á að kíkja á ættingja í leiðinni ef tími gefst til.

Aftur að kjötkötlunum...þessir tölvupóstar svara sér ekki sjálfir.

Lifið heil.

Arnar Thor

Ummæli

Helgi sagði…
Maður bara sprækur. Ég var alveg búinn að gleyma tilvist Borgþórs. Þú ert á sama aldri núna og Mói var á um 1990. Tyggðu á því, truntan þín!
/Helgi H.

Vinsælar færslur